<$BlogRSDUrl$>

15.2.07

-Fróðleiksmolar í Pakkhúsinu-
Kæru fjelagar.
Í kvöld mun sjálfur formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar stíga á stokk í Byggðasafni Hafnarfjarðar og flytja fyrirlestur um sögu kvikmyndasýninga í Hafnarfirði, með sérstaka áherslu á gullaldartímabil kvikmyndahúsanna í bænum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Er fyrirlesturinn byggður á BA ritgerð sem formaður ritaði við Háskóla Íslands síðastliðið haust.
Hefst fyrirlesturinn kl. 20 stundvíslega, og er aðgangur ókeypis og öllum opinn.

Með bestu kveðju,
Sverrir Þór Sævarsson, formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

10.2.07

-Aðalfundur-
Nú fer að líða að aðalfundi, en hann verður haldinn þann 3. mars næstkomandi eins og allir ættu að vita.
Ljóst er að mikill áhugi er fyrir fundinum og þegar hafa borist lagabreytingartillögur og eins hefur heyrst af mönnum sem eru farnir að setja sig í framboðsgírinn.
Lögum fjelagsins verður skellt á netið ekki mikið seinna en núna um helgina, og þá geta menn glöggvað sig betur á þeim og jafnvel komið með hugmyndir um eitthvað sem betur mætti fara.

Nánar verður fjallað um komandi fund eftir því sem nær dregur.

Með bestu kveðju,
Sverrir Þór Sævarsson, formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

9.2.07

- Skrítlur -

Okkur hjónunum áskotnuðust nokkur blöð af Eros - árgangi 1980 - mjög skemmtilegt tímarit með allskyns reynslusögum. Skemmtilegastar eru þó skrítlurnar - en eitthvað hefur nú húmor landans breyst á þeim 27 árum sem liðin eru síðan þetta blað var gefið út !

Leyfi ykkur hér með að njóta einnar skrítlunnar:

"Það hafði orðið slys. Ekið á mann, og eins og venjulega í slíkum tilfellum, dreif að múgur og margmenni til að stumra yfir honum, og sýndist sitt hverjum.
Þangað til ein röggsöm tók af skarið, ýtti karlmönnunum til hliðar og sagði: Leyfið mér að komast að. Ég hef nefnilega lært hjálp í viðlögum.
Hún losaði um belti mannsins, setti jakkann undir höfuðið á honum og skipaði fyrir á báða bóga, þangað til einn þeirra, sem hún hafði stjakað frá, klappaði henni föðurlega á öxlina og sagði: Stúlka mín, þegar þér komið þar að í lærdómnum, sem segir: Sækið lækni, þá skulið þér hlaupa yfir það atriði. Ég er nefnilega kominn"

... mér finnst þessi skrítla um margt skondin, að stúlkukindin skuli dirfast að riðjast svona fram fyrir karlmennina á staðnum ... að hugsa sér.

Hver veit nema að fleiri skrítlur komi síðar.

Ritað í Hafnarfirði þann 9 dag febrúarmánaðar árið 2007 - Jón Arnar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?