<$BlogRSDUrl$>

28.11.06

-Fróðleiksmolar í Pakkhúsinu-
Mig langar að benda fjelagsmönnum á það að á nýju ári mun Byggðasafn Hafnarfjarðar taka aftur upp hina stórskemmtilegu fyrirlestraröð Fróðleiksmolar í Pakkhúsinu, hvar ýmsir aðilar, lærði og leikir, flytja fyrirlestra um ýmislegt sem viðkemur Hafnarfirði.
Einn af hápunktum dagskrár næsta árs er án nokkurs vafa þegar Sverrir Þór Sævarsson, formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar, mun flytja fyrirlestur um sögu kvikmyndasýninga í Hafnarfirði, en Sverrir hefur einmitt nýlokið við að skrifa BA ritgerð um þetta efni. Verður fyrirlesturinn þann 18. janúar, og eins og fyrr segir í hinu svonefnda Brydepakkhúsi. Eru fjelagsmenn hvattir sérstaklega til að mæta.

Með bestu kveðju,
Sverrir Þór Sævarsson, formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

4.11.06

-Nælonverksmiðja í Hafnarfirði-
Saga hafnfirsks iðnaðar er löng og býsna merkileg um margt. Er skemmst að minnast Raftækjaverksmiðju Hafnarfjarðar, Rafha, sem framleiddi eldavélar og ýmis önnur heimilistæki sem finna mátti á öllum betri heimilum landsins um langt skeið, og flestir landsmenn sem komnir eru til vits og ára þekkja.
Færri vita þó að í upphafi sjöunda áratugarins stóð til að reisa nælonverksmiðju í Hafnarfirði, sem átti að hafa það hlutverk að framleiða ýmiss konar varning úr næloni, en þó fyrst og fremst nælonsokka. Verksmiðju þessari, sem átti að verða gríðarstór og kosta um 20 milljónir króna, hafði verið fundinn staður á 10 þúsund fermetra lóð við Reykjavíkurveginn. Átti verksmiðjan að tryggja um 80 stúlkum atvinnu (það var sérstaklega tekið fram í fjölmiðlum að um stúlkur væri að ræða).
Forráðamenn verksmiðjunnar voru þeir Baldvin Einarsson forstjóri Almennra trygginga og Carl Olsen aðalræðismaður. Höfðu þeir félagarnir tryggt sér mikið fjármagn, sem og vélar, frá V-Þýskalandi, en vantaði einungis að bæjarráð veitti þeim bæjarábyrgð fyrir hluta stofnkostnaðarins. Svo virðist sem málið hafi strandað þar...þó svo að undirritaður sé ekki búinn að kafa það djúpt ofan í málin enn sem komið er.
Óneitanlega hefði það verið gaman ef Hafnarfjörður hefði orðið þekktur sem nælonsokkabærinn.

Með kveðju,
Sverrir Þór Sævarsson, formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

-Fjelagsmenn athugið enn og aftur!-
Nú vona ég að allir hafi tekið 7. október vel og rækilega frá eins og beðið var um í síðasta pósti, og allt hafi gengið vel í þeim efnum.
Nú er nefnilega komið að því að taka annan dag frá, en að þessu sinni er það laugardagurinn 25. nóvember næstkomandi. Þá verður nefnilega blásið til afmælisveislu Sögufjelags Hafnarfjarðar, en 28. nóvember verða þrjú ár liðin frá því fjelagið var formlega stofnað.
Enn á eftir að ákveða (lesist: finna út) hvar afmælishátíðin verður haldin, en það mun vonandi skýrast á allra næstu dögum. Hafi menn einhverjar uppástungur um fundarstað, og fundardagskrá, þá eru þeir hinir sömu eindregið hvattir til að liggja ekki á þeim hugmyndum sínum, heldur deila þeim með okkar góða formanni.

Með bestu kveðju,
Sverrir Þór Sævarsson, formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?