<$BlogRSDUrl$>

22.2.05

-Aðalfundur Sögufjelags Hafnarfjarðar-
Eins og flestum er kunnugt var aðalfundur Sögufjelagsins haldinn á laugardagskvöldið síðastliðið. Hófst fundurinn á málsverði frá El Jefe og brást honum ekki bogalistin frekar en fyrr um daginn...eða fyrri daginn.
Þegar menn voru farnir að melta hinn asíska kjúklingarétt, hófust hefðbundin aðalfundarstörf. Formaður flutti ávarp, hvar gerð var grein fyrir starfsemi fjelagsins á liðnu ári. Því næst var gengið til kosninga. Er þar skemmst að segja frá því að stjórn fjelagsins var endurkjörin með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða og auk þess bættist Ingvar í stjórnina sem annar meðstjórnandi.
Almenn sátt virtist ríkja um lög fjelagsins, en þó voru gerðar smávægilegar breytingar er sneru að atkvæðarétti nýrra meðlima á aðalfundi auk þess sem áheyrnarfulltrúi benti á misræmi í lögum um kosningu stjórnar fjelagsins, og verður ráðist í lagfæringar á þeirri grein hið fyrsta.
Tveir nýir meðlimir voru því næst teknir inn í fjelagið, og býð ég þá Magnús & Jóhann (þó ekki dægurlagasöngvararnir geðþekku) hjartanlega velkomna í fjelagið...megi þeir verða fjelaginu til mikilla heilla.
Loks tóku við almennar umræður og bar þar ýmislegt á góma, m.a. hugmyndir um fund á erlendri grundu og um fjelagsgjöld. Var afgreiðslu þessara mála frestað um sinn, en verða þau vonandi tekin upp hið fyrsta þegar nánari gagna hefur verið aflað.

Að endingu ber svo að geta þess að nýtt og glæsilegt merki fjelagsins var afhjúpað á fundinum og ríkti almenn ánægja með merkið og komu fram ýmsar hugmyndir um að búa til nælur, boli, húfur og hvaðeina með merki fjelagsins á.
Tvær gjafir voru gefnar fjelaginu á fundinum. Annars vegar gaf formaðurinn fjelaginu forláta fundargerðabók og penna, sem á án efa eftir að koma í góðar þarfir. Hins vegar ákvað El Jefe að gefa fjelaginu allan þann kostnað sem hlaust af matarinnkaupunum fyrir veisluna, og er því eiginfjárstaða fjelagsins orðin mjög vænleg.

Fleira var það held ég ekki.

Góðar stundir.
Sverrir Þór Sævarsson, formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

13.2.05

----Ut vil ek---

Ágætu fjelagar!

Upp er komin sú hugmynd að halda einn fund á erlendri grundu næsta haust. Þar sem Helgi Sævarsson er fjötrum bundinn af Knattspyrnufjelaginu Þrótti, þá hentar októbermánuður einna best fyrir hann. Ég bar upp þá hugmynd (reyndar á sjöunda glasi) að fundurinn færi fram í fundarherbergi á hinni heimsþekktu jazzbúllu Ronnie Scotts í Lundúnum. http://www.ronniescotts.co.uk/ronnie_scotts/index.htm Ég heimsótti staðinn núna í Janúar og komst að því að hægt væri að leigja fundaraðstöðu á efri hæð staðarins. Þar er einnig hægt að kaupa vínveitingar og aðrar nauðsynlegar veigar.

Þá væri æskilegt að heimsækja þá fjelaga sem búa erlendis, núna bjóða Iceland Express t.d. upp á ferðir til Frankfurt, þannig þá er orðið tiltölulega stutt á æfingu hjá kórstjóranum í Vínarborg.

Hvernig hljómar þetta?

ÍMM

12.2.05

Matseðill

Varðandi matseðil hef ég ákveðið að stinga upp á að boðið verði upp á Satay-kjúkling, réttur sem er uppruninn í Thailandi. Með þessu verða borin fram hrísgrjón og grænmeti af einhverju tagi. Þá er hugmyndin að þessu verði skolað niður með hrísgrjónabjór frá Asíu, t.d. Tsing Tao eða Tiger.

Ef einhverjir eru mótfallnir þessu þá vinsamlegast gerið athugasemd sem fyrst.

Allar hugmyndir eru vel þegnar.

El Jefe

6.2.05

-Tilkynning-
Aðalfundur Sögufjelags Hafnarfjarðar verður haldinn laugardagskvöldið 19. febrúar næstkomandi kl. 20:00. Athugið breytta dagsetningu.

Dagskrá aðalfundar:

1. Formaður leggur fram og skýrir fjölfaldaða skýrslu stjórnarinnar um starfsemi fjelagsins á liðnu ári.

2. Kosin stjórn skv. 5. gr. laga Sögufjelags Hafnarfjarðar.

3. Lagabreytingar.

4. Önnur aðalfundarstörf (m.a. innganga nýrra meðlima).

Athugið að um endanlega dagsetningu er að ræða.

Það er von formanns að sem flestir fjelagsmenn geti séð sér fært að mæta. Stefnt er að því að matsveinn fjelagsins, Ívar Már, muni sjá um að elda gómsætan mat ofan í fjelagsmenn og vil ég biðja menn um að tilkynna það hér á síðunni ef þeir ætla að taka þátt í því. Ráðgert er að hver og einn þurfi að leggja til 1000-1500kr. vegna borðhaldsins.

Með bestu kveðjum
Sverrir Þór Sævarsson, formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?