<$BlogRSDUrl$>

30.4.04

-Nostalgíukvöld 15.Maí-

Jeg hefi ákveðið að bjóða til nostalgíuveislu Evróvisionkveldið 15.Maí n.k.
Jeg hefi fengið nokkur skemmtileg lög frá lokum áttunda áratugarins sem jeg hef hug á að leika fyrir gesti.
Ásamt því að fjallað verður lítillega um sögu Hljóðrita í Hafnarfirði.
Lögin Róbert Bangsi og Furðuverk verða leikin að lokinni Evróvision.

Kveðja
Helgi Ben Sævarsson
Ritari Sögufjelags Hafnarfjarðar.

22.4.04

Hið konunglega fjelag fór fram á beina útsendingu frá brúðkaupi krónprins Danmerkur

Þessi grein sem tekin er af vefsvæðinu www.mbl.is vakti athygli mína. Það er spurning hvort ekki væri hægt að koma á einhverskonar samstarfi milli þessara félaga?

En hér er greinin í fullri lengd:

Hið konunglega fjelag, sem er félagsskapur íslenskra royalista eða konungssinna, sendi áskorun til Ríkisútvarpsins í dag þess efnis að sýnt yrði „beint frá brúðkaupi ríkisarfans í Danaveldi þann 14. maí næstkomandi“. Útvarpsstjóri, Markús Örn Antonsson, brást snarlega við og svaraði royalistum um hæl og staðfesti að ríkissjónvarpið muni sýna beint frá þessum merkisatburði.

Í áskorun Hins konunglega fjelags (HKF) segir m.a.: „Íslandsvinurinn Friðrik krónprins er frumburður Margrétar Þórhildar Danadrottningar, sem fæddist árið 1940 sem frumburður Friðriks, síðasta krónprins Íslands, enda var henni gefið íslenzkt nafn sem sæmdi íslenzkri krónprinsessu. Fjöldi konunghollra Íslendinga telur það vera sjálfsagt hlutverk hins íslenzka Ríkisútvarps að tryggja að þeir geti fylgzt með þessum merku tímamótum í sögu konungsfjölskyldunnar okkar.“

Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur er einn talsmanna HKF og sagði hún í viðtali við Fréttavef Morgunblaðsins, að félagsmenn væru ákaflega þakklátir fyrir skjót viðbrögð. HKF er að sögn Eyrúnar tiltölulega ungt félag og ekki fjölmennt sem stendur en vart verði við mjög mikinn áhuga á félaginu og stefnt sé að fjöldahreyfingu.

Félagsmenn hittast á dönskum frokost og ræða saman og um þessar mundir fer mestur tími í skipulagningu fyrir stóratburðinn 14. maí nk. þegar Friðrik Danaprins og María heitkona hans hin ástralska verða gefin saman í kóngsins Kaupinhafn. Stefnt er að því að royalistar í Reykjavík og jafnvel víðar að geti hist, haldið upp á brúðkaupið, skálað fyrir brúðhjónunum og horft saman á brúðkaupið í beinni. Ráðgert er að senda skeyti til brúðhjónanna.

Þegar Eyrún er spurð hvort félagsmenn í Hinu konunglega fjelagi vilji að Íslendingar sameinist Danaveldi á ný eftir sextíu ára lýðveldistíma, segir hún að það hafi verið viðrað innan félagsins hvort rétt væri að fá Danadrottningu og fjölskyldu í einhvers konar verktöku til þess að sjá um þau mál fyrir Íslands hönd.

Þá sagði Eyrún að royalistar á Íslandi mæltust til þess við atvinnurekendur að þeir gefi starfsfólki sínu frí um og eftir hádegi föstudaginn 14. maí nk. til þess að fólk geti fylgst með brúðkaupinu í beinni útsendingu Ríkisútvarpsins.

Ívar M. Magnússon

-Gleðilegt sumar-
Kæru fjelagar og aðrir íbúar Hafnarfjarðar.
Ég vil nota tækifærið og óska yllur öllum gleðilegs sumars og vona að sumarið sem í hönd fer verði gæfuríkt fyrir alla meðlimi Sögufjelags Hafnarfjarðar.

Með kveðju
Sverrir Þór Sævarsson
Formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

10.4.04

Gönguklúbbur Sigga Chaplin

Það er allt annað að heimsækja vefsvæði fjelagsins, gróskan er mikil þessa dagana. Annars er helsta tilefnið með þessum skrifum mínum að stinga upp á því að gönguklúbb fjelagsins verði komið á fót fyrir sumarið. Það eru ýmsar merkar sagnfræðilegar gersemar allt í kringum bæinn sem vert væri að skoða einhverja góðviðrisdagana í sumar. Þá væri jafnvel hægt að enda hverja ferð á grillmáltíð og köldu öli þar sem hægt væri að hafa skoðanaskipti um staði þá sem heimsóttir voru.

Ívar M. Magnússon

2.4.04

-Sveinssafn Björnssonar-

Jeg rakst á ári fróðlegan vef tileinkuðum Sveini heitnum Björnssyni listmálara okkar Hafnfirðinga.
Veraldavefjarslóð er http://www.sveinssafn.is/
Hvet jeg alla meðlimi til að líta þennan vef augum, því Sveinn var jú um margt merkilegur borgari.

1.4.04

Í áframhaldi af góðum skrifum formanns og okkar kæra Örvars ákvað ég að koma á framfæri smá söguvitneskju til okkar sannra áhugamanna. Það má geta þess að Gullfoss kom til Hafnarfjarðar strax í fyrstu ferð og hefur Eimskipafjelagið alltaf verið í traustu sambandi við Hafnarfjarðarhöfn í gegnum árin, og rekið hér útibú í hart nær 40ár. Fyrst var Eimskip með umboðsaðila sem var Lýsi og Mjöl (það gamalkunna fyrirtæki). Þegar þeir voru farnir að lána sjálfum sér allar vörur framhjá tolli og afgr. Eimskip ákvað Eimskip að opna eigin afgr. í Hafnarfirði. Í dag er Eimskip Hafnarfirði að losa um 45.000smálestir á ári af frystivöru og eru jafnframt að losa timbur, Salt og allt annað sem til fellur.


Ágrip af sögu


Aðdragandi að stofnun Hf. Eimskipafélags Íslands hófst síðla árs 1912, þegar fimm kunnir borgarar efndu til fundar með sér til að ræða um stofnun skipafélags í eigu Íslendinga. Framan af fóru þeir leynt með umræður sínar, en lýstu ákvörðun sinni yfir opinberlega um miðjan janúar 1913. Þá var þegar hafist handa við söfnun hlutafjár sem lauk með því að fjöldi hluthafa varð það mikill að svaraði til um 15,5% allrar þjóðarinnar á þeim tíma.

Stofndagur Hf. Eimskipafélags Íslands, 17. janúar 1914, varð sameiginlegur hátíðisdagur allra íbúa Reykjavíkur. Voru fánar dregnir að húni, frí gefið í skólum og verslunum og skrifstofum lokað til þess að sem flestir gætu átt þess kost að sækja stofnfundinn. Stærsta samkomuhús bæjarins, þar sem stofnfundurinn skyldi haldinn, reyndist ekki nógu stórt og var fundurinn fluttur í Fríkirkjuna í Reykjavík.



Fyrsta skip Eimskips, es. Gullfoss, kom til landsins 15. apríl árið 1915 og annað, es. Goðafoss, 13. júlí sama ár. Félagið hefur frá upphafi haldið þeirri stefnu að nefna skip sín eftir íslenskum fossum. Fyrstu áætlanasiglingar Eimskips voru milli Íslands og Danmerkur, með viðkomu í Bretlandi. Í fyrri heimsstyrjöldinni, er siglingaleiðir lokuðust til Norður-Evrópu, beindist athygli Íslendinga að Ameríkuviðskiptum. Vorið 1915 sigldi Gullfoss til New York, fyrst íslenskra skipa sem sigldi til Ameríku frá því að skip Leifs Eiríkssonar tók þar land rúmlega níu öldum áður. Að lokinni heimsstyrjöldinni árið 1918 lögðust Ameríkusiglingar Eimskips smám saman niður, en fastar áætlunarferðir voru teknar upp milli Íslands, meginlands Norður-Evrópu og Stóra-Bretlands.

Árið 1926 varð sú breyting að við bættust áætlunarsiglingar til Hamborgar og Antwerpen, auk Gautaborgar, London og Stettin. Þannig hafa áætlanir félagsins jafnan endurspeglað verslunarhætti landsmanna á hverjum tíma.

Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru Ameríkusiglingarnar teknar upp að nýju og ferðum einnig haldið uppi milli Stóra-Bretlands og Íslands, eftir að siglingaleiðir lokuðust til meginlandsins. Félagið missti þrjú skip á stríðsárunum vegna hernaðaraðgerðanna.

Forstjórar félagsins hafa verið þessir:
Emil Nielsen frá 1914 til 1930, Guðmundur Vilhjálmsson frá 1930 til 1962, Óttarr Möller frá 1962 til 1979, Hörður Sigurgestsson frá 1979 til 2000 og Ingimundur Sigurpálsson frá 2000 til 2003. Starfandi stjórnarformaður í dag er Magnús Gunnarsson.


með kveðju Gummi.



-Upphaf skemmtanahalds í Hafnarfirði-
Lítill pistill eftir formann Sögufjelagsins.

Komið þið sælir kæru fjelagar. Hér á eftir fer lítill pistill sem ég setti saman og fjallar um skemmtanahald í Hafnarfirði í kringum aldamótin síðustu. Pistill þessi er úrdráttur úr bókinni Saga Hafnarfjarðar sem Sigurður Skúlason ritaði og var gefin út árið 1933, á 25 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðar, góða skemmtun.

Það var í kringum 1840 sem íbúar Hafnarfjarðar fara að gera þá kröfu að geta skemmt sér í bænum líkt og tíðkaðist þá í mörgum bæjarfélögum landsins. Helst þetta í hendur við fólksfjölgun í bænum sem var farin að vaxa örar og örar á þessum tíma.
Spurningunni "Hvað hafa menn til skemmtunar?" svaraði síra Árni Helgason á þá leið árið 1842: "Eg ætla helzt og bezt vinnu sína. Spil skemmta einstaka menn sér við á helgidagskvöldum, en aldrei er um annað spilað en sæmdina að vinna. Menn heimsækja oft hver annan, slúðra og bjóða hver öðrum í nefið. Sumir lesa sögur eða kveða rímur, og aðrir hlýða á. Nú ætla eg upp talið, nema hvað einstaka sinnum er danzað í Hafnarfirði".
Það er á seinni hluta 19. aldar sem dansskemmtanir hefjast fyrir alvöru í bænum. Ber fyrst að nefna "pakkhúsböllin" sem C. Zimsen verslunarstjóri hélt á hverju hausti til handa þeim sem höfðu starfað við Knudtzonsverslun um sumarið.

Ákveðin tímamót verða í sögu skemmtanahalds í Hafnarfirði árið 1873 þegar í bæinn flytur veitingamaðurinn Martin A. Th. Clausen. Clausen, sem var þá 62 ára gamall, hafði tekið sig til og flutt frá Keflavík til Hafnarfjarðar sem verður að teljast ansi skynsamleg ákvörðun (ho ho). Hafði hann þá um skeið verið mjög fótaveikur, en var orðinn allgóður til heilsu á þessum tíma.
Clausen hóf starfsemi sína í Hafnarfirði í Gesthúsum, en reisti sér skömmu síðar hús norðan við Undirhamarstúngarðinn og var það hús í daglegu tali nefnt Klúbburinn..
Þann 24.janúar 1876 fær svo Clausen formlega leyfi hjá amtmanni til að reka veitingahús í bænum.
Í Klúbbnum voru síðan haldnir dansleikir og veislur auk þess sem menn komu þar saman einkum á laugardagskvöldum.
Tvo ansi nýstárlega hluti flutti Clausen með sér til Hafnarfjarðar. Annars vegar var það lírukassi sem Clausen spilaði á þegar dansleikir voru haldnir, hinn hluturinn nefndist "Knappennaalebilliard". Höfðu Hafnfirðingar allnokkurt gaman af hvoru tveggja og þeir voru ófáir sem eyddu frítíma sínum við billiard hjá Clausen gamla.


Clausen andaðist árið 1882, þá 71 árs að aldri. Eignaðist þá Böðvar Böðvarsson veitingahúsið og rak þar gistihús samhliða veitingarekstri allt til ársins 1907 er hann andaðist. Lauk þar með farsælli sögu Klúbbsins en húsið var rifið árið eftir að Böðvar lést, nánar tiltekið sama ár og Hafnarfjörður hlaut kaupstaðarréttindi.

Á þessum árum voru bindindisfélög Hafnarfjarðar einnig iðin við skemmtanahald og stóðu fyrir ýmsum skemmtunum svo sem dansleikjum og hlutaveltum. Fyrstu bindindisfélög bæjarins voru einmitt stofnuð árið 1885 og hétu þau tvö fyrstu Morgunstjarnan nr. 11 og Daníelsher nr. 4. Þegar bindindishreyfingin barst til Hafnarfjarðar þótti þar allmikill drykkjuskapur í landi og þóttu góðtemplarar eiga ærið verkefni fyrir höndum í bænum árið 1885.

Hafnfirðingar virðast fljótt hafa orðið ansi glaðir til skemmtanahalds, svo mjög að sýslumanni óaði við þeim fjölda beiðna um skemmtanaleyfi sem honum bárust. Setti sýslumaður þau skilyrði að góðrar reglu væri gætt og að dansleikir stæðu ekki lengur en til kl. 11 að kveldi ef þeir færu fram á laugardagskvöldum. Virðast dansleikir þó allajafna hafa farið fram á sunnudagskvöldum.

Hér læt ég staðar numið, en af þessu má sjá að snemma hafa Hafnfirðingar komist upp á lag með að skemmta sér, og hafa síst verið einhverjir eftirbátar skemmtanasjúkra í höfuðborginni.

Góðar stundir.
Sverrir Þór Sævarsson
Formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?