<$BlogRSDUrl$>

18.5.04

-14 dagar-
Nú hafa sérfræðingar frá Suður Kóreu ráðið bót á prentsmiðju vandræðum þeim er hrjáð hafa okkur undanfarið og því ekkert að vanbúnaði að birta grein þá er mikil eftirvænting hefur verið eftir síðustu daga.

Hafnsögubáturinn Þróttur

Lengi vel tíðkaðist það að hafnsögumenn í Hafnarfirði þyrftu að leggja sér sjálfir til hafnsögubát til að aðstoða sjófarendur við að komast í og úr skipi. Var þar undantekningalaust um árabáta að ræða.
Árið 1925 kaupir hafnarsjóður loks vélbát enda hafði hafnsögumaðurinn í Hafnarfirði þráfaldlega farið þess á leit við hafnarsjóð að vélbátur yrði keyptur enda orðið algjörlega ótækt að notast við árabát við starfið. Báturinn sem keyptur var, var orðinn gamall og úr sér genginn og þurfti að gera nokkrar endurbætur á honum til að hann yrði nothæfur.
Vélbátur þessi var í eigu hafnarsjóðs til ársins 1931 en þá var hann orðinn ónýtur.

Þróttur fyrsti.

Árið 1931 kaupir hafnarsjóður vélbát sem Kol & Salt í Reykjavík hafði notað sem dráttarbát til að draga kolapramma í Reykjavíkurhöfn. Bátur þessi fékk nafnið Þróttur og var notaður í að lóðsa skip, auk þess sem hann var notaður sem dráttarbátur, við skipafærslur o.þ.h.
Báturinn nýttist embættinu með eindæmum vel og var notaður allt til ársins 1969 en þá var hann orðinn ónothæfur eftir 38 ára farsæla þjónustu.

Þróttur annar.

Í október 1969 voru svo fest kaup á nýlegum frambyggðum vélbát frá Stykkishólmi. Báturinn sem hafði upphaflega verið smíðaður sem fiskibátur, var 25 rúmlestir og var smíðaður í Kópavogi árið 1963.
Bátur þessi fékk einnig nafnið Þróttur og verður ekki annað sagt en að hann hafi nýst embættinu vel því hann er ennþá í notkun og stendur vel fyrir sínu, þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum miklar endurbætur nokkrum sinnum á þessum tíma, nú síðast fyrir tveimur árum síðan.

Árið 2001 var svo ráðist í smíði nýs hafnsögubáts fyrir höfnina. Bolur bátsins kom frá Póllandi en uppsetning véla, innrétting og allur almennur frágangur var í höndum Véla- og skipaþjónustunnar Ósey hf. hér í bæ. Báturinn sem fékk nafnið Hamar þykir mjög vel lukkaður og er mikil ánægja með hann þó að hann muni seint verða jafnmikil táknmynd fyrir höfnina og lífið í kring eins og Þróttur gamli hefur verið.

Hér hef ég farið lauslega yfir sögu Þróttar sem má með sanni segja að hafi verið órjúfanlegur hluti af Hafnarfjarðarhöfn síðustu áratugi. Vona ég að menn hafi haft almenna ánægju af.

Við gerð þessa pistils notaðist ég við bókina Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 eftir Ásgeir Guðmundsson sem gefin var út af Skuggsjá árið 1983. Einnig fékk ég góðar upplýsingar frá Sigurði Hallgrímssyni fyrrverandi starfsmanni Hafnarfjarðarhafnar, og kann ég honum bestu þakkir fyrir.

Með kveðju
Sverrir Þór
Formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

13.5.04

-19 dagar-
Vegna bilunar í prentsmiðju verður ekki hægt að birta greinina um Þrótt fyrr en á morgun, föstudag.

Við biðjum alla hlutaðeigandi aðila afsökunar á þessu.

Með kveðju
Sverrir Þór
Formaður.

12.5.04

-20 dagar-
Nú eru einungis tuttugu dagar þangað til bærinn okkar fagri verður 96 ára gamall. Því fer hver að verða síðastur að kaupa fána og blöðrur og ýmislegt sem fylgir slíkum fagnaði.

Á morgun stefni ég á að birta afar fróðlegan og skemmtilegan pistil um hafnsögubátinn Þrótt, sem er Hafnfirðingum að góðu kunnur.

Þangað til

Bestu kveðjur
Sverrir Þór
Formaður.

10.5.04

-22 dagar-
Kaupfélagsbíllinn.

Það eru eflaust ekki margir sem muna eftir þessu fyrirbæri en það var vissulega til bíll sem gekk undir nafninu Kaupfélagsbíllinn.
Þegar norðurbæjarhverfið var að byggjast upp á miðjum áttunda áratug síðustu aldar, og menn biðu eftir því að alvöru nýlenduvöruverslun risi í hverfinu, fengu Kaupfélagsmenn þá stórgóðu hugmynd að staðsetja bíl í hverfinu hvar seldar yrðu nauðsynjavörur s.s. mjólk og brauðmeti ýmis konar. Bíll þessi var staðsettur þar sem nú eru gatnamót Hjallabrautar og Miðvangs, hvar raðhúsin á Miðvangi eru staðsett. Bíllinn var opinn alla virka daga og afgreiðslumaður var enginn annar en Guðmundur Steingrímsson, oft nefndur Gvendur tromma og Papa Jazz.
Gvendur þótti hinn hressasti afgreiðslumaður sem gat gleymt sér yfir því að segja kúnnanum sögur á milli þess sem hann trommaði á allt sem fyrir höndum var.
Bíll þessi lagðist af í lok áratugarins, enda hafði Kaupfélagið þá látið reisa glæsilegt verslunarhús sem enn stendur, þó oft hafi verið skipt um nafn á þeirri ágætu verslun.

Þeir íbúar norðurbæjarins sem voru svo lánsamir að vinna í álverinu í Straumsvík voru þó ekki svo háðir því að versla við Kaupfélagsbílinn enda var starfrækt verslunin Straumur í einu af skrifstofuhúsnæðunum við álverið. Þar var oft spennandi fyrir unga drengi að fara að versla og einhverra hluta vegna er mér minnistæðast frá þessari verslun forláta hamsatólg sem þar var seld...ekki veit ég ástæðuna fyrir því að þetta er mér svona ofarlega í huga, enda ekki mikið fyrir hamsana.

Þykist ég nú vita að bróðir minn ritarinn geti hnýtt einhverja fróðleiksmola við þennan litla pistil.

Með kveðju
Sverrir Þór Sævarsson
Formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

8.5.04

-24 dagar-
Í gær láðist að telja niður að afmælinu og biðst ég afsökunar á því, en þess má geta að í gær voru 25 dagar í afmælið.

Í dag fór Sögufjelagið hins vegar í hópferð í Bæjarbíó. Mættir voru formaðurinn, ritarinn og formaður safnasviðs fjelagsins. Til sýningar var myndin Hafnarfjörður fyrr og nú eins og áður hefur verið ritað hér á síðuna.
Mæltist þessi bíóferð mjög vel fyrir og fór nettur nostalgíuhrollur um eldri fjelagsmennina sem ekki höfðu séð kvikmynd í þessu húsi í hartnær 20 ár, eða þegar þeir fóru í fjelagi við þriðja mann og sáu myndina Tarzan og týndi drengurinn.
Meðalaldur sýningargesta hefur líklega verið í kringum sjötugsaldurinn, en það gerði lítið til þar sem gaman var að fylgjast með þessum öldnu Hafnfirðingum hvísla sín á milli þegar eitthvað fólk birtist á tjaldinu. Mátti þá heyra sagt eitthvað á þessa leið: "Þarna er Steini Diddu" "Var þetta ekki hann Bergur?" og fleira í þá veru.
Eins kom kynslóðabilið vel í ljós þegar sögumaður myndarinnar fór með textann um helsta óvin sjómannsins, háhyrninginn, og að honum yrði að útrýma miskunnarlaust!, þá hlógu meðlimir Sögufjelagsins dátt en gamla fólkið bara kinkaði góðlátlega kolli....greinilega sammála sögumanninum.

Sem sagt, í alla staði mjög vel heppnuð ferð og vonandi að fleiri slíkar verði í náinni framtíð fjelagsins.

Með kveðju
Sverrir Þór Sævarsson
Formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

6.5.04

-26 dagar-
Víðistaðatún þekkja fjelagar Sögufjelagsins mætavel, enda hafa flestir meðlimir fjelagsins leikið knattspyrnu á einum eða öðrum tíma á þessum fallega og skjólsæla stað. Lengi vel var túnið þekkt sem Haukatún, enda stóð lengi vel til að Haukar fengju þar aðstöðu til æfinga og keppni. Reyndar voru það Haukamenn sem ruddu dágóðan hluta svæðisins og bjuggu til ágætis aðstöðu til að iðka knattleik og voru margar æfingar haldnar á túninu.

"Á þessum stað stóð áður býlið Víðistaðir, sem dró nafn sitt af víðinum sem óx í hrauninu. Til er gömul þjóðsaga um tilurð þessa svæðis sem nefnt er Víðistaðatún. Sagan segir að þar hafa smali frá Görðum gætt fjár og hafi eitt sinn gleymt sér í eigin hugarheimi þegar hann uppgötvaði að hraun var farið að renna þar nærri og hafði lokað leið hans. Sagt er að hann hafi þá lagst á bæn og beðið að féð sem honum hafði verið trúað fyrir sakaði ekki; og svo fór að hraunið hlóðst upp í kringum Víðistaðatún svo smalanum og fénu var borgið.
Þetta er þó aðeins þjóðsaga, því vitað er að þar sem Víðistaðatúnið liggur var áður eyja. Hraunið rann síðan umhverfis eyjuna, sem síðar blés upp og jarðvegurinn fauk út í hraunið, en eftir var sléttlendi þar sem túnið er nú."
Heimild: Bragi J. Ingibergsson, www.vidistadakirkja.is.

Ýmislegt fleira væri hægt að rita um þetta svæði sem ól upp margan ungan drenginn, svo sem um sláturhúsið sem stóð þar sem kirkjan stendur nú, um hina yndislegu lykt sem lagði af skreiðinni sem lá í þurrkun á trönum fyrir ofan túnið og ýmislegt fleira...en það bíður betri tíma.

Með kveðju
Sverrir Þór Sævarsson
Formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

5.5.04

-27 dagar-
Vegna anna formanns í dag og undanfarna daga verða pistlarnir af skornum skammti. Þykir mér það leitt.
Hins vegar langar mig að benda á það að Sögufjelag Hafnarfjarðar hyggur á hópferð í Bæjarbíó á laugardaginn hvar ætlunin er að horfa á myndina Hafnarfjörður fyrr og nú. Hafa menn ekki farið á filmsýningu í þessu húsi síðan stórmyndin Tarzan og týndi drengurinn var sýnd um miðjan níunda áratug síðustu aldar.
Fjölmennum.

Með kveðju
Sverrir Þór.

4.5.04

-28 dagar-
Sælir fjelagar. Í dag verður enginn pistillinn en þess í stað vil ég benda mönnum á að Kvikmyndasafn Íslands verður með filmsýningar í kvöld og á laugardaginn. Myndin sem sýnd verður er engin önnur en Hafnarfjörður fyrr og nú, sem gerð var á sjöunda áratug síðustu aldar og var einmitt til sýningar á fyrsta fundi Sögufjelagsins. Sýningin í kvöld hefst kl. 20:00 og laugardagssýningin hefst kl. 16:00. Miðaverð er einungis 500kr. íslenskar.
Hvet ég alla meðlimi fjelagsins til að mæta á þessar sýningar.

Með kveðju.
Sverrir Þór Sævarsson
Formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

3.5.04

-29 dagar-
Margir Hafnfirðingar þekkja eflaust Jófríðarstaði og Jófríðarstaðaveg hér í bæ. Nú velta eflaust margir fyrir sér hvur þessi Jófríður var sem staðirnir og vegurinn taka nafn sitt frá. Hið rétta er að Jófríður sú var og hefur aldrei verið til. Hér er á ferðinni einhvur villa seinni tíma manna, enda stóð þarna á sínum tíma fallegur bær sem nefndur var Ófriðarstaðir. Eitthvað hefur Hafnfirðingum líkað illa ófriðurinn og með tímanum breytt honum yfir í Jófríði, enda hefur friðurinn haldist ágætlega á Jófríðarstöðum.

Með kveðju
Sverrir Þór Sævarsson
Formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

2.5.04

-30 dagar til stefnu-
Í ár eru liðin 80 ár síðan skipulögð ræktun hófst í Hellisgerði, hinum glæsilega lystigarði okkar Hafnfirðinga. Það var árið 1922 sem Málfundafélagið Magni fékk yfirráð yfir svæðinu og tveimur árum seinna hófst ræktun af fullum krafti. Magna menn fjármögnuðu verkefnið með því að halda svokallaðar Jónsmessuhátíðir sem haldnar voru fyrst um sinn í Hellisgerði en voru svo seinna meir haldnar víðs vegar um bæinn.
Tilgangur Magna með ræktun garðsins var að koma í veg fyrir að ýmis sérkenni frá náttúrunnar hendi hyrfu úr umhverfi bæjarins við hinar ýmsu framkvæmdir.

Árið 1942 var ráðist í það verkefni að byggja tjörn með gosbrunni í garðinum. Voru það útgerðarfélögin í bænum sem lögðu til mest allt fjármagn til þeirra framkvæmdar auk þess sem hjónin Helga Jónasdóttir og Bjarni Snæbjörnsson læknir gáfu forláta myndastyttu eftir Ásmund Sveinsson sem nefndist Yngsti fiskimaðurinn. Varð tjörnin mörgum ungum sem öldnum Hafnfirðingnum ómælt gleðiefni á góðviðrisdögum enda hafði unga kynslóðin gaman að því að busla í tjörninni í sólargeislunum.
Illu heilli var tjörnin brotin upp um miðjan níunda áratug síðustu aldar auk þess sem styttan eftir Ásmund var fjarlægð. Hefur staðið til í nokkur ár að endurbyggja tjörnina en erfiðlega hefur gengið að fá fjármagn í þær framkvæmdir.

Hin síðari ár hefur garðurinn þó verið í nokkuri niðurníðslu, en það er von Sögufjelags Hafnarfjarðar að bætt verði úr þeirri þróun og að Hellisgerði verði áfram það stolt Hafnarfjarðar sem garðurinn hefur verið síðustu áttatíu árin.

Með kveðju
Sverrir Þór Sævarsson
Formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

1.5.04

-Mánuður í afmæli-
Góðan daginn háttvirtu fjelagsmenn og gleðilegan verkalýðsdag.
Í dag er einmitt mánuður þangað til bærinn okkar, Hafnarfjörður, á afmæli. Talnagleggstu mönnum reiknast til að í ár verði fagnað 96 ára afmælis bæjarins.
Ég hef ákveðið að telja niður að þessum merka viðburði hér á síðunni með því að birta litla fróðleiksmola á hverjum degi fram að afmælinu. Ef einhverjir meðlimir fjelagsins vilja koma litlum molum að þá er það ekkert nema sjálfsagt, bara koma því að hér á kommenta kerfinu. Góðar stundir.

-"Berið mig þangað sem púnsið er"-
Eins og ég hef áður rekið í pistli hér á síðunni þá voru fyrstu skemmtanir bæjarins hin svokölluðu pakkhúsböll. Böll þessi voru haldin snemma vetrar þegar búið var að koma öllum saltfisk í skip og búið að hreinsa pakkhúsin. Á þessi böll var boðið öllu því fólki sem unnið hafði á vegum Knudtzonsverslunar sumarið og haustið á undan. Gleðskapurinn var svo ávallt haldinn í "Nýja pakkhúsinu" sem svo var nefnt. Þar var boðið upp á kaffi, brauð og púns. Svo var dansað og farið í leiki og var Zimsen verslunarmaður jafnan fremstur í flokki þar.
Eitt sinn gerðist það á slíku balli að unglingsmanni sem unnið hafði hjá Zimsen þótti púnsið helst til gott, enda harla óvanur slíkum drykkjarföngum, sem endaði með því að hann steinsofnaði. Zimsen bað um að drengurinn yrði borinn heim, en þegar menn reyndu að hefja hann á loft, rankaði hann við sér og mælti: "Berið mig þangað sem púnsið er". Var þetta lengi á eftir haft að orðtaki í Hafnarfirði.

Með kveðju
Sverrir Þór Sævarsson
Formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?