<$BlogRSDUrl$>

25.7.04

-Pistillinn góði-
Jæja kæru fjelagar, þá kemur loks pistillinn sem ég hafði lofað hér á vormánuðum um aðdraganda þess að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi. Hann er reyndar nokkuð langur, en ég vona að menn setji það ekki fyrir sig enda ansi áhugavert efni á ferðinni. Vonandi skemmtið ykkur vel.

-Hafnarfjörður fær kaupstaðarréttindi.-
Frá upphafi hafði Hafnarfjörður ávallt tilheyrt Álftaneshreppi, sem innihélt að auki Garðabæ og Bessastaðahrepp. Sérstaða Hafnarfjarðar í hreppnum kom þó mjög snemma í ljós, enda byggðu Hafnfirðingar sitt lífsviðurværi að mestu á fiskveiðum og fiskverkun á meðan aðrir hlutar hreppsins stunduðu landbúnað af miklu kappi. Þessi sérstaða varð þess valdandi að menn fóru fljótlega að ræða það sín á milli að Hafnarfjörður skyldi fá kaupstaðarréttindi líkt og Reykjavík hafði fengið árið 1786.

23.júni 1876 gerist það að 49 íbúar í Hafnarfirði og nánasta umhverfi leggja fram bréf fyrir hreppsnefnd Álftaneshrepps hvar farið var fram á það að bærinn fengi kaupstaðarréttindi. Hreppsnefndarmenn tóku þessari beiðni vel og settu á fót nefnd sem skipuð var 14 mönnum, sjö úr hópi þeirra sem lögðu beiðnina fram og sjö úr öðrum hlutum Álftaneshrepps, til að fara yfir þessi mál. Eins og nefnda er siður varð lítið úr verki þessa fjórtán manna hóps en þó gerðist það þann 9.maí 1877 að samþykkt var að skipta hreppnum í þrennt, Álftaneshrepp, Garðahrepp og Hafnarfjörð að því gefnu að samþykki fengist hjá yfirvöldum landsins fyrir þessari skiptingu. Þegar til kastanna kom reyndist landshöfðingi ekki jafn hrifinn af þessari hugmynd og niðurstaða hans varð sú að hreppnum skyldi skipt í tvo hreppa, Bessastaðahrepp og Garðahrepp og féll Hafnarfjörður undir þann síðari.

Bæjarbúar voru síður en svo tilbúnir að leggja árar í bát þrátt fyrir niðurstöðu landshöfðingja því árið 1890 skoruðu 34 íbúar Hafnarfjarðar á hreppsnefnd Garðahrepps um að aftur yrði farið í að skoða möguleikann á kaupstaðarréttindum til handa bænum. Hreppsnefnd setti málið aftur í nefnd, sem var gert að skila skýrslu um málið sem síðan var tekin til umfjöllunar í febrúar árið eftir, þar sem kom fram mikil mótstaða við tillöguna. Fór það svo að tillagan var felld af meirihluta fundarmanna og gerðist fátt í þessum málum næstu árin.

Helstu ástæður þess að málið lá í dvala næstu árin voru þær að mikill aflabrestur varð á árunum 1896-1900, aðallega sökum mikillar ásóknar enskra togara á hafnfirsk mið. Afleiðing þessa varð mikil fólksfækkun. Árið 1892 töldust íbúar Hafnarfjarðar vera rúmlega 600 en átta árum seinna voru þeir orðnir tæplega 400. Þótti mönnum því lítil ástæða til að sækjast eftir kaupstaðarréttindum á þessu tímabili.

Um aldamótin fara hins vegar fiskveiðar að glæðast aftur og bæjarbúum tekur að fjölga. Samhliða því fer mönnum að verða enn ljósari sérstaða Hafnarfjarðar gagnvart öðrum hlutum Garðahrepps.
Snemma árs 1903 héldu atkvæðisbærir menn í Hafnarfirði fund þar sem samþykkt var, eftir miklar umræður, að fara þess á leit við löggjafarvaldið að Hafnarfjörður fengi kaupstaðarréttindi. Voru þeir Páll Einarsson sýslumaður, August Flygenring kaupmaður og Jón Þórarinsson skólastjóri valdir til að undirbúa málið fyrir Alþingi.
Frumvarp var svo lagt fyrir Alþingi í júlí 1903 og voru flutningsmenn þess þeir Valtýr Guðmundsson og Júlíus Havsteen. Kom fram í frumvarpinu að Hafnarfjörður væri bær í miklum uppgangi og fyrir dyrum stæðu ýmsar mikilvægar framkvæmdir sem vart kæmust í gang meðan bærinn væri háður öðrum hlutum Garðahrepps.
Andstæðingar frumvarpsins héldu því fram að kaupstaðarréttindi til handa Hafnarfirði myndi eingöngu hafa í för með sér aukin kostnað sem á endanum yrðir greiddur úr landssjóði og myndi því bitna á öðrum íbúum landsins. Almennt eru menn á því að þetta hafi einungis verið fyrirsláttur, ástæðurnar hafi fremur verið þær að mönnum óaði við þeirri þéttbýlismyndun sem þegar var hafin á suðvestur horni landsins með tilheyrandi fólksfækkun í sveitum landsins.
Fór það svo að frumvarpið var fellt á Alþingi með 6 atkvæðum gegn 5.

Hafnfirðingar voru þó ekki á þeim buxunum að gefast upp. Á þessum tíma starfaði Alþingi á tveggja ára fresti, tvo mánuði í senn. Það var því í júlí 1905 sem frumvarpið var aftur lagt fyrir Alþingi, að þessu sinni af þeim Birni Kristjánssyni og Guðmundi Björnssyni. Rökin með og á móti frumvarpinu voru nákvæmlega þau sömu og tveimur árum áður. Eftir miklar vangaveltur og ýmis nefndarstörf fór það svo að frumvarpið var aftur fellt, að þessu sinni með 12 atkvæðum gegn 11.

Næst þegar Alþingi kom saman, 1907, lögðu Hafnfirðingar enn einu sinni á brattann. Ákveðið var á fundi hreppsnefndar í febrúar það ár að leggja enn og aftur fram frumvarp um kaupstaðarréttindi til handa Hafnarfirði. Nú var Valtýr Guðmundsson aftur kominn í málið og lagði hann ásamt Augusti Flygenring fram frumvarp á Alþingi þess efnis. Helsta breyting frumvarpsins var sú að laun bæjarstjóra Hafnarfjarðar skyldu greidd úr bæjarsjóði en ekki landssjóði eins og staðið hafði í fyrri tveimur frumvörpunum. Þar með voru horfin helstu rök andstæðinga frumvarpsins, enda fór það svo að frumvarpið var loksins samþykkt samhljóða og afgreitt sem lög frá Alþingi. Að auki hafði Hafnfirðingum fjölgað um tæplega þúsund manns á sjö árum og ljóst að í óefni stefndi fengi bærinn ekki sjálfstjórn í eigin málum. Lögin fengu svo staðfestingu konungs þann 22. nóvember 1907 (enda var Ólafur Ragnar ekki enn orðinn konungur yfir Íslandi á þessum tíma) og gengu í gildi 1. júní 1908.

Fyrsti bæjarstjóri Hafnarfjarðar varð svo Páll Einarsson, sem þó gegndi embættinu einungis í nokkra daga, en hann tók við bæjarstjóraembættinu í Reykjavík þann 1.júlí 1908.

Heimild: Ásgeir Guðmundsson: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983. Fyrsta bindi. Skuggsjá. Bókabúð Olivers Steins. Hafnarfirði 1983, bls. 39-52.

Góðar stundir.
Sverrir Þór Sævarsson, formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?