<$BlogRSDUrl$>

17.2.06

-Um hafnfirzka verzlun-
Eftirfarandi pistil rakst ég á á dögunum, og þótti við hæfi að birta hérna. Reyndar er þetta ekki allur pistillinn, en allavega inntakið úr honum.

“Og erum við ekki hér komnir að merg málsins: að fá Reykvíkinga og fólk úr næstu nágrannabyggðum til að verzla í Hafnarfirði. Hér er hægt að bjóða upp á næg bílastæði í miðbænum, sem er grundvöllur þess að slíkt geti tekizt.

Það er augljóst, að áhrifamesti fjölmiðillinn er sjónvarpið. Hvernig væri, ef þeir aðilar, sem verzlun stunda hér í Firðinum, tækju sig saman og létu gera eina snjalla sjónvarpsauglýsingu um möguleika hafnfirzkrar verzlunar, og mætti þá gjarnan geta um útsýnið af Hamrinum í leiðinni – fegurð hrauns og bæjar – og að svo geti menn fengið sér kaffisopa í Skiphól að lokinni happadrjúgri verzlunarferð. Þessu er hér með slegið fram aðilum til íhugunar. Það á sem sé ekki einlægt að vera nöldra yfir því þótt hafnfirzkar húsmæður bregði sér út fyrir bæinn og verzli eitthvað í leiðinni. Það á að keppa að því að fá utanbæjarfólk til að verzla hér samfara því að hvetja Hafnfirðinga til að notfæra sér hafnfirzka verzlun og aðra þjónustu, sem hér er á boðstólum. Þetta er mikilvægt mál, því að aukin verzlun stuðlar beint og óbeint að uppbyggingu og viðgangi bæjarfélagsins, sem við svo sannarlega spörum ekki að gera kröfur til.

Ef við lítum á miðbæ Hafnarfjarðar, eins og til dæmis Strandgötuna, þá stenzt hún fyllilega samjöfnuð við verzlunargötur Reykjavíkur. Fjölbreytilegar verzlanir á flestum sviðum eru í hverju húsi.”

Þessi pistill birtist þann 2.janúar 1971 í blaði óháðra borgara í Hafnarfirði sem nefndist Borgarinn. Nokkuð ljóst má vera að innihald þessa pistils á vel við enn þann dag í dag, nema kannski að vart er hægt að fá sér kaffisopa í Skiphól, og eitthvað hefur fjöldi verzlana á Strandgötunni minnkað. Annars mjög góð áminning til Hafnfirðinga.

Njótið vel.

Sverrir Þór Sævarsson, formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

13.2.06

KÖNNUN

Gaman væri að sjá hverjir ætla sér að mæta á aðalfundinn. Vinsamlegast gefið ykkur fram í athugasemdakerfinu.

kv,
El Jefe

9.2.06

-Aðalfundur Sögufjelags Hafnarfjarðar-
Kæru fjelagar.
Eftir að hafa vegið og metið þær annars fáu athugasemdir sem komu vegna dagsetningar á fyrirhuguðum aðalfundi Sögufjelagsins hefur stjórn fjelagsins ákveðið að halda sig við fyrirhugaða dagsetningu, og verður því aðalfundurinn haldinn að kvöldi þess 18.febrúar næstkomandi. Um hefðbundin aðalfundarstörf verður að ræða, og verður fundurinn haldinn í nýju fjelagsheimili að Klukkubergi 31 í Hafnarfirði, örstuttan spöl frá gamla fjelagsheimilinu. Gert er ráð fyrir að fundur hefjist kl. 20:00, og verður aðalfundarstörfum væntanlega hagað með tilliti til lokakvölds forkeppni Evróvisjón söngvakeppninnar, verði þess sérstaklega óskað.

Sú hugmynd hefur komið upp að panta mat fyrir sársvanga meðlimi fjelagsins, og væri ágætt ef þeir sem hyggjast nýta sér það, myndu viðra hugmyndir sínar um það hvaðan bezt sé að kaupa mat, á heimasíðu fjelagsins. Skildu ekki örugglega allir þessa setningu?

Vilji menn koma einhverju sérstöku á framfæri er bent á heimasíðu fjelagsins, sogufjelag.blogspot.com, eða að hafa samband við undirritaðan.

Með beztu kveðju,
Sverrir Þór Sævarsson, formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

7.2.06

Varðandi veitingar á aðalfundi

Eftir samtal mitt við ritara fjelags er komin upp sú hugmynd að panta mat í stað þess að elda. Þessi hugmynd er sprottin af því að talsverð vinna fylgir því að ganga frá eftir fjölmennan aðalfund, sem dæmi má nefna tók það þrjár klukkustundir fyrir ritara að ganga frá eftir síðasta aðalfund. Þetta er óásættanlegt og því varð úr að bera þessa hugmynd undir fjelagsmenn og fá jafnframt tillögur að stöðum sem hægt er að panta frá ef samstaða næst. Þess ber að geta að þetta þarf alls ekki að vera mikið dýrara en að elda.

Með kærri kveðju,
Ívar M.
Bryti fjelags

6.2.06

-Merki fjelagsins-
Kæru fjelagar. Ég veit að margir meðlimir Sögufjelags Hafnarfjarðar hafa saknað þess að eiga ekki merki fjelagsins á tölvutæku formi. Nú hefur stjórn fjelagsins ákveðið að bæta úr því, og á meðfylgjandi hlekk má nálgast hið stórglæsilega merki okkar.

Gjöriði svo vel.

Sverrir Þór Sævarsson, formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?