<$BlogRSDUrl$>

30.1.04

Kvikmyndaarmur Sögufjelags Hafnarfjarðar.

Hér með sting ég upp á því að kvikmyndaarmi fjelagsins verði komið á legg. Hugmyndin yrði þá sú að fjelagsmenn myndu koma saman og horfa á vel valdar og vandaðar kvikmyndir sem síðan yrðu greindar og túlkaðar út frá Hafnarfirði og Hafnfirskum gildum. Myndirnar þurfa hvorki að gerast í bænum, né vísa til hans á nokkurn hátt, heldur væri t.d. hægt að finna persónur sem ættu sér hliðstæður í Hafnarfjarðarbæ svo eitthvað sé nefnt.

Með kærri kveðju,

Ívar M. Magnússon

Formaður : Sverrir Þór Sævarsson Sagnfræðinemi
Varaformaður: Óðinn Sigurbjörnsson Vélfræðingur
Ritari : Helgi Ben Sævarsson Tölvufræðingur
Gjaldkeri : Guðmundur Ágúst Aðalsteinsson Verkstjóri
Meðstjórnandi : Ívar Már Magnússon Viðskiptafræðinemi
Formaður Safnasviðs: Sævar Helgi Bragason nemi við Flensborgarskóla hinn síðari
Kórstjórn: Örvar Már Kristinsson Óperusöngvari
Umsýsla fasteigna í S Evrópu : Jóhann Ingvason Fasteignasali
Blóm fjelags er Baldursbrá
Vefsíða fjelags verður sogufjelag.blogspot.com


ath þetta er ég að setja inn til að allar hafi þetta hver er hvað.

-Fundarboð-
Jeg hefi fengið ákúrur fyrir að vera seinn í svifum varðandi aðalfund þennan.
Viðurkenni jeg fúslega að talsverð átök hafa verið milli mín og formanns í ákveðnum málum tengdu fjelaginu.
En jeg er maður sátta og legg til að fundur verði haldinn í félagsheimilinu Klukkubergi Laugardaginn 7. Febrúar n.k.
Þar sem ræddar verði lagabreytingar ásamt áhorfi á mynd Hrafns Gunnlaugssonar um Óðal Feðranna.
Vinsamlegast tilkynnið þátttöku yðar hjer á umræðutöflunni.
Jeg legg einnig til að nýjir fjelagar hafi ekki atkvæðisrjett fyrr en að aðalfundi loknum svo formaður nái ekki að safna í kringum sig hlýðnum gæðingum er veitt geti formanni brautargengi í ákveðnum málum.

Með Hafnfirskri kveðju
Helgi Ben Sævarsson
Ritari Sögufjelags Hafnarfjarðar.

29.1.04

-Blásum til fundar!-
Kæru fjelagar.
Nú er svo komið að lagabreytingarnefnd sú er jeg setti á fót til að vinna að lögum fyrir fjelagið hefur skilað inn tillögu að lögum. Er það mál manna að ákaflega vel hafi tekist til og að nefndin hafi skilað verkinu af sjer á mettíma.
Þá er næsta skref málsins að hóa saman fund hvar tillagan verði rædd og ef ástæða þykir til að bæta inn ákvæðum við lögin. Í lok fundar þyrfti svo vissulega að liggja fyrir samþykkt á tillögum þeim sem fyrir fundinum liggja.
Tillögur lagabreytingarnefndar hafa þegar verið sendar háttvirtum ritara fjelagsins og er það von mín að hann sjái sjer fært að senda skjalið áfram á aðra meðlimi fjelagsins svo menn geti kynnt sjer tillögurnar og verði tilbúnir með athugasemdir á fundinum.

Þá er bara að finna heppilegan tíma fyrir fundinn. Ætlast jeg til þess að meðlimir fjelagsins tjái sig um það mál hjerna á síðunni.

Góðar stundir.
Sverrir Þór Sævarsson
Formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

-Reiðhjólaverkstæði Hverfisgötu-

Mjer var litið á auglýsingu þessa hjer á veraldarvefnum og langaði að grenslast fyrir hvort einhvur meðlima fjelagsins kannaðist við verkstæði þetta?
Jeg tel þetta vera hnýsilega hugmynd að sameina hljómplötu og reiðhjóla bransann eins og einhvur myndi segja
Því hvaða húsmóðir hefir ekki ánægju af hressandi reiðhjólatúr og setja að honum loknum vínylplötu á fóninn og dansa nokkur létt spor áður en eldhússtörfin hefjast?

26.1.04

-Skopsaga-

Hefir mér borist til eyrna eftirfarandi skopsaga um Hafnfirðinga, reyndar ættaða frá Vestfjörðum.

Vilhjálmur Sveinsson frá Góustöðum í Skutulsfirði, fiskverkandi í Hafnarfirði, var sanntrúaður framsóknarmaður eins og flest skyldmenni hans vestra. Í Hafnarfirði höfðu þeir plan saman, Villi og Eiríkur Mikkaelsson frá Breiðdal, sem rak þar vélsmiðju.

Villa þótti Eiríkur vera farinn að þrengja að fiskverkun sinni með alls konar drasli sem hann geymdi úti á planinu. Einn daginn stóðst Villi ekki mátið, því þetta ástand fór versnandi, og rauk yfir í vélsmiðjuna. Þar var Eiríkur staddur. Vilhjálmur hellti sér yfir hann og sagði:
"Þú þarna íhaldsbullan þín, þið eruð allir eins, ekkert nema yfirgangssemin og frekjan."
"Íhaldsbullan?" svarar Eiríkur. "Hvað ert þú að tala um íhaldsmann? Ég veit ekki til annars en að ég hafi kosið framsókn alla tíð."
Þá segir Vilhjálmur í allt öðrum tón en fyrr:
"Komdu sæll og blessaður Eiríkur minn. Þetta er ekkert mál, við leysum þetta í bróðerni."

Já þeir voru hressir karlar Vilhjálmur og Eiríkur, og kölluðu svo sannarlega ekki allt ömmu sína

Góðar stundir.
Jón Arnar Jónsson
Formaður lagabreytingarnefndar Sögufjelags Hafnarfjarðar.

20.1.04

-Hafnfirðingar miklir sundmenn-
Í dag bárust þær gleðifregnir að gestum í sundlaugar bæjarins hefði fjölgað um tvo af hundraði á síðasta ári. Alls komu tæplega 400.000 manns í sundlaugarnar sem jafngildir því að hver einasti Hafnfirðingur hafi farið um 17 sinnum og laugað sig. Er þessi árangur vafalaust með því bezta sem gerist erlendis. Þakka menn þennan árangur sem náðst hefur að mestu leyti yfirbyggingu yfir laugina við Herjólfsgötu árið 1952 og svo tilkomu laugarinnar í suðurbænum, en hún var tekin í notkun haustið 1989.

Er enginn efi í mínum huga að hjer spila meðlimir Sögufjelagsins stórt hlutverk enda miklir sundmenn og almenn hreystimenni.


Að lokum má svo geta þess að lið Flensborgar og Iðnskólans öttu kappi í spurningarkeppni framhaldsskólanna er nefnist Gettu betur. Skemmst er frá því að segja að Flensborgarar höfðu betur og urðu lokatölur 28-17. Sem kunnugt er er formaður safnasviðs Sögufjelagsins einn liðsmanna Flensborgarliðsins og óskum við honum til hamingju.

Góðar stundir.
Sverrir Þór
Formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

19.1.04

-Óðal feðranna-
Sú hugmynd hefir komið upp að meðlimir Sögufjelagsins hittist og horfi saman á kvikmyndina Óðal Feðranna.
Mynd þessi er í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar og er ádeila á tögl og haldir Sambands Íslenskra Samvinnufjelaga hjer á árum áður.
Í þessari mynd er fræg og falleg ástarsena sem leikin er af Sveini M Eiðssyni sem var einhverskonar Clark Gable okkar Íslendinga á þessum árum. Í senunni reynir hann að fá drátt hjá heyrnarlausri heimasætu sem sýnir Sveini lítinn áhuga.
Sveinn ákveður að brugga henni ástarseyð til að komast yfir hana.
Hefði jeg áhuga á að menn skráðu sig hjer á Commenta listann ætli menn sjer að taka þátt.
Athugið að nokkur atriði í myndinni eru tekin fyrir framan gamla kaupfjelagið við Strandgötu.

Með kveðju
Helgi Ben Sævarsson
Ritari Sögufjelags Hafnarfjarðar

14.1.04

-Þorrablót-
Jeg vil hefja pistil minn á því að þakka formanni góð orð og vona að þau hafi kveikt baráttu neista í fjelagsmönnum.
Kem jeg nú að efni pistils, við stofnun fjelags var ákveðið að næsti fundur yrði haldinn í tengslum við Þorra.
Nú vill svo til að styttist í þorrann og því þyrftum við að fara að undirbúa næsta fund.
Hefi jeg lagt til við menn að umræðuefni fundar verði undir fyrirsögninni:
Jeg man þá tíð....Hafnarfjörður bernsku minnar.
Svo væri ágætt ef ágætur formaður gæti komið upp smá umræðutengli hjer á síðunni.

Jeg þakka þeim er lesa þenna pistil.

Helgi Ben Sævarsson
Ritari Sögufjelags Hafnarfjarðar.

-Ávarp formanns-
Háttvirtir fjelagar, velgjörðarmenn og aðrir lesendur. Ég vil byrja á að óska ykkur gleðilegs árs, með miklum þökkum fyrir hið liðna.
Það hafði löngum verið draumur nokkurra ungra Hafnfirðinga að stofna með sér fjelagsskap sem hefði það að markmiði að halda á lofti og varðveita sögu hins fagra og hýra heimabæjar okkar, Hafnarfjarðar. Þann 28. nóvember síðastliðinn rættist svo þessi draumur er Sögufjelag Hafnarfjarðar var formlega stofnað. Án nokkurs vafa er hér komið fjelag sem mikil þörf var orðin á enda hefur varðveisla sögulegra minja í okkar heimabæ oftar en ekki mætt algjörum afgangi hjá ráðandi öflum í bæjarfjelaginu. Er skemmst að minnast þess er hið glæsilega hús við Vesturbraut 2, sem reist var í upphafi síðustu aldar, var rifið niður á dögunum án þess að nokkur fengi rönd við reist. Sýnir þessi atburður svo ekki verður um villst að full þörf er á fjelagi sem þessu.

Mörg stór og aðkallandi verkefni eru framundan hjá hinu nýstofnaða fjelagi. Ber þar að sjálfsögðu hæst 100 ára afmæli kaupstaðarins þann 1.júní 2008. Þar mun Sögufjelag Hafnarfjarðar verða framarlega í flokki ef rétt er á spilunum haldið. Þess vegna megum við ekki láta deigan síga heldur halda ótrauðir áfram í okkar starfi, fjelaginu og bænum til heilla.

Ég þakka þeim sem hlýddu.

Góðar stundir.

Sverrir Þór Sævarsson
Formaður Sögufjelags Hafnarfjarðar.

12.1.04

-Vinafjelag í Reykjavík?-
Kæru fjelagar!
Mjer hefir orðið heyrin kunnugt um fjelag starfrækt í höfuðborginni Reykjavík sem kallast sögufjelag.
En að vísu með nýmóðins stafsetningu Sögufélag. Jeg tel hjer kærkomið tækifæri á að eignast vinafjelag hjer á landi.
Það er mál að skotið verði á fundi í Sögufjelagi Hafnarfjarðar og einhvurjir meðlimir fengnir til að ganga til Reykjavíkur á fund þessara manna. Þeir hafa komið sjer uppi síðu á veraldarvefnum sem þið getið litið á til fróðleiks.

Með kveðju
Helgi Ben Sævarsson
Ritari Sögufjelags Hafnarfjarðar.

-Hjer skal sögu segja-

Verið velkomin á vef Sögufjelags Hafnarfjarðar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?